13. mars: Dagur líkamsvirðingar

 

Í dag er Dagur líkamsvirðingar haldinn í annað sinn á Íslandi.

 

Líkamsvirðing felst í því að bera virðingu fyrir líkama sínum og annarra. Það þýðir að við hugsum vel um líkama okkar og hugsum fallega til hans. Við lærum að tengjast honum, hlusta á hann og bera virðingu fyrir því hvað hann er vitur, sterkur og duglegur.

 

Í tilefni dagsins fóru fram fróðlegar og skemmtilegar umræður á meðal barna og starfsfólks Brimvers/Æskukots um eiginleika og getu líkama okkar:

 

– Hvaða líkamsparta notum við til að ganga, hoppa, hlaupa, borða, sjá, o.s.frv. ?

– Líkaminn okkar er byggður úr beinum, æðum, vöðvum, skinni, o.s.frv.

– Inni í okkur er taugakerfi sem lætur okkur vita ef við t.d. meiðum okkur.

– Engir tveir líkamar eru eins, á sama hátt og engin tvö laufblöð eða tveir steinar eru eins.

– Líkamar okkar er klárir, t.d. geta þeir sagt okkur hvenær þeir þurfa mat og hvíld.

 

Einnig var farið í ýmsa leiki sem reyndi á krafta, liðleika og samhæfingu líkamans, myndir voru málaðar, bækur skoðaðar, og margt margt fleira.

 

Hugsum ávallt vel um líkama okkar – það margfalt borgar sig!