Alþjóðadagur móður jarðar er í dag.

 

Árið 1971 tilnefndu Sameinuðu þjóðirnar 22. apríl sem Alþjóðadag móður jarðar með það að markmiði að vekja fólk til umhugsunar um plánetuna okkar og hvetja það til að gæta hagsmuna hennar.

Með því að hugsa vel um náttúruna og umhverfið verndum við jörðina frá mengun og hvers konar spillingu sem fylgir nútíma samfélagi, og er sú varðveisla gífurlega mikilvæg fyrir komandi kynslóðir sem hér munu dvelja um ókomna tíð.

 

Alþjóðadagur móður jarðar er nú orðinn að þriðja stærsta viðburðinum í Bandaríkjunum á eftir jóla- og hrekkjavökuhátíðunum, þar sem bæði fyrirtæki og skólar taka fullan þátt í verkefnavinnu og hátíðarhöldum tengdum honum. Sú vinna sem liggur að baki til að gera daginn sem áhrifaríkastan hefur smitað út frá sér og er dagurinn nú haldinn hátíðlegur víðsvegar um allan heim.

 

Hér á Íslandi hefur apríl mánuður verið tileinkaður vitundarvakningu um umhverfismál og hefur átakið fengið nafnið Grænn apríl. Þetta er þriðja árið í röð sem átakið fer af stað og fer boðskapur þess ört vaxandi.

 

Við hjá Heilsuleikskólanum Brimveri-Æskukoti tókum þá ákvörðun snemma í vor að tileinka dagana 20. – 25. apríl Alþjóðadegi móður jarðar og höfum við verið að vinna ýmis lærdómsfull verkefni tengd málstaðnum.

Við lesum meðal annars bækur og fræðirit um jörðina, tölum um endurvinnslu og mikilvægi þess að hugsa vel um landið okkar, við förum út og tínum rusl, vinnum í fjölbreyttri föndurvinnu og margt, margt fleira.

Hér má meðal annars sjá verkefni sem börnin á Æskukoti unnu í sameiningu, en þarna sjáið þið þau öll leiðast hringinn í kringum jörðina. Verkefnið er táknrænt fyrir þær sakir að sameiginlega ætla þau að gera sitt besta í að hugsa vel um jörðina okkar.