Jólaglugginn á Brimveri afhjúpaður

Mánudaginn 15.desember var jólaglugginn á Brimveri afhjúpaður, en hann er partur af jóladagatali sveitarfélags Árborgar. Alls fá 24 fyrirtæki og stofnanir innan sveitarfélagsins úthlutað einum glugga og eru þeir afhjúpaðir, einn á dag, fram að jólum. Í hverjum glugga er svo einn bókstafur og gefst íbúum Árborgar kostur á að safna saman stöfunum svo úr verði ein setning að lokum. Þeir sem taka þátt í leiknum geta svo skilað setningunni inn til sveitarfélagsins sem dregur út heppna vinningshafa sem fá gjafir að launum.

Glugginn á Brimveri þykir ansi fagur, en hann er vel skreyttur af fallegu jólaskrauti og jólaljóðum sem börnin hafa föndrað og útbúið undanfarnar vikur. Í glugganum sést svo glitta í bókstafinn „Y“.

Það er gaman að fá að taka þátt í þessum sniðuga ratleik á vegum sveitarfélagsins, og verður spennandi að sjá hvað setning kemur í ljós að morgni aðfangadags.