Stóri leikskóladagurinn

Stóri leikskóladagurinn

Þann 23.maí sl. var Stóri leikskóladagurinn haldinn hátíðlegur í Ráðhúsi Reykjavíkur. Þá komu allir leikskólar Reykjavíkurborgar saman til þess að kynna áhugaverð verkefni sem þeir höfðu unnið að yfir veturinn. Hver og einn leikskóli fékk kynningarbás til afnota og voru mörg skemmtileg og spennandi verkefni kynnt. Í ár var öllum leikskólum í sveitarfélaginu Árborg boðin þátttaka á Stóra leikskóladeginum, og voru þar á meðal heilsuleikskólarnir Brimver á Eyrarbakka og Æskukot á Stokkseyri. Þeir kynntu annars vegar verkefnið Barnabær sem elstu nemendur leikskólanna hafa tekið þátt í með nemendum í Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri, og hins vegar það öfluga jógastarf sem leikskólarnir hafa boðið upp á í vetur.

 

1 2

 

 

 

 

Hulda og Lóa sáu um kynninguna okkar á Stóra leikskóladeginum.    

Barnabær

                        Á hverju vori leggur Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri niður hefðbundin störf síðustu vikuna á skólaárinu og við tekur þemaverkefni sem ber heitið „Barnabær“. Þá eru fjölmargar vinnustöðvar settar á fót bæði af foreldrum, kennurum og öðrum velunnurum skólans. Vinnustöðvarnar eru með fjölbreyttu sniði svo að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Sem dæmi um vinnustöðvar síðustu ára má nefna hjólaverkstæði, skiltagerð, kaffihús og blómaræktun. Nemendur skólans sækja um vinnu á stöðvunum og eru svo ráðnir til starfa fyrstu þrjá daga Barnabæjar-vikunnar. Þessir þrír dagar eru nýttir til að vinna að þeim afurðum sem hver vinnustöð ætlar að bjóða fram á fjórða degi Barnabæjar, en þá er haldin vegleg lokahátíð. Þann dag fá nemendurnir útborgð í gjaldmiðli sem kallast „Besóar“ og

Vorið 2013 bauðst elstu nemendum leikskólanna Brimvers og Æskukots að vera þátttakendur í Barnabæ og voru það galvösk börn sem mættu og settu á fót leikjastöð ásamt nokkrum eldri skólanemendum sem ráðnir höfðu verið til starfa á leikjastöðinni. Leikskólabörnin sem voru að fara að hefja skólagöngu sína að hausti nutu sín svo sannarlega þessa daga í skólanum. Þau kynntust fullt af skólakrökkum og starfsmönnum skólans, auk þess sem þau lærðu bæði skólareglurnar og að rata um skólann. Ekki síst lærðu þau að vinna saman að því að gera starfstöðina þeirra sem besta á hátíðinni og svo fór að hún varð ansi vinsæl á meðal gesta og gangandi.

Um þetta fjölluðu leikskólarnir Brimver og Æskukot á Stóra leikskóladeginum og  er óhætt að segja að þessi samvinnan milli skólastiga og samvinna skólans og foreldra hafi vakið athygli margra.

Í lok maí árið 2014 var svo leikurinn endurtekinn, nema nú settu leikskólabörnin á fót vísindastarfsstöð þar sem margar spennandi rannsóknir og tilraunir voru gerðar með aðstoð nokkurra eldra nemenda úr Barnaskólanum. Enn og aftur unnu börnin samhent að því að undirbúa stöðina þeirra fyrir hátíðina, þau kynntust skólaumhverfinu og voru svo með glæsilega vísindastöð á einni af stærstu hátíð skólans. Það voru því glöð og sjálfsörugg börn sem héldu heim eftir hátíðina, tilbúin að hefja skólagöngu sína í haust.

 

3 4 5

 


Tilraunastarfsemi í Barnabæ – Gestir fá að prufa hinar ýmsu rannsóknir og tilraunir.

 

Jóga – Fjölskylduverkefni í leikskólunum á Ströndinni

Í heilsuleikskólunum Brimveri á Eyrarbakka og Æskukoti á Stokkseyri fer fram markviss íþrótta- og jógakennsla. Börnin stunda hreyfinguna í aldursskiptum hópum og fer kennslan fram tvisvar í viku á báðum stöðum auk annars hvers föstudags.

Þetta fyrirkomulag hófst haustið 2013 og hefur gengið afskaplega vel. Börnin eru áhugasöm og dugleg í tímum sem skilar sér í stöðugum framförum og jákvæðu andrúmslofti.  Jógastundirnar hafa slegið í gegn hjá bæði börnum, foreldrum og starfsfólki þar sem lagt er upp með að hafa þá eins áhugaverða og fjölbreytta og kostur er. Börnin hafa tekið auknum framförum þegar kemur að jafnvægi, liðleika og styrk, og má með sanni segja að þau séu orðnir algjörir jógasnillingar. Einnig hefur  andleg líðan og hugarfar breyst til hins betra og læra börnin að lifa í ró, sátt og samlindi.

Fjölskyldan virkjuð í jóga

Leikskólarnir hafa verið duglegir í að virkja foreldra barnanna til þátttöku í jóga með börnunum með ýmsum hætti. Til að mynda buðu þeir upp á fjölskyldustund í jóga nú fyrir áramót, og mættu þá foreldrar og systkini með börnunum í jógatíma í leikskólunum. Hugsunin var að leyfa fjölskyldunni að kynnast jógastarfinu okkar og um leið fá að sjá börnin í leik og starfi. Þetta lukkaðist mjög vel og voru börn, foreldrar og kennarar í skýjunum með hvernig til tókst. Einnig hafa leikskólarnir boðið ömmum og öfum að vera viðstödd jógastund hjá börnunum á leikskólatíma, og naut það gífurlegra vinsælda hjá ungum sem öldnum. Það var svo nú í mars sem leikskólarnir fóru af stað með samvinnuverkefni í jóga á milli heimila barnanna og leikskólanna. Verkefnið gengur út á það að annan hvern föstudag fá börnin með sér heim bók sem kallast „Jógabókin mín“. Í henni eru fjölbreyttar jógastöður sem þá aðallega líkjast dýrum eða öðrum náttúrufyrirbærum, og eiga börnin að framkvæma þær heima með foreldrum sínum.  Að því loknu eiga þau að teikna jóga-stöðurnar, líkt og þau túlka þær, í bókina. Til dæmis ef jógastaðan sem um ræðir er „froskur“ þá teiknar barnið frosk við hliðina á myndinni af jógastöðunni. Einnig er í boði að klippa út myndir, t.d. ef að barnið finnur mynd af froski í dagblaði, tímariti eða í tölvunni, og líma þær svo í bókina.  Öll börn á aldrinum 1 árs til 6 ára taka þátt í þessu verkefni. Börnin vinna eina opnu í senn yfir helgi og skila síðan bókinni aftur þegar komið er til baka í leikskólan á mánudegi. Fyrir hverja opnu sem unnin er fá börnin stjörnu. Þetta hefur gengið vonum framar og hafa bæði börn og foreldrar sýnt verkefninu mikinn áhuga.

Þessi verkefni fengu gríðarlega athygli á Stóra leikskóladeginum auk þess sem öllum kennsluaðferðum okkar í jóga með börnum var vel hrósað.

jóga

 

 

 

 

 

Ýmsar kennsluaðferðir í jóga kynntar á plakati á Stóra leikskóladeginum.

 

 

Það er virkilega hvetjandi fyrir okkur leikskólanna að fá klapp á bakið fyrir vel unnin störf og munum við halda áfram að sinna verkefnum okkar af bestu getu, svo bæði börn, starfsfólk og síðast en ekki síst heimilin njóti góðs af.