Geðrækt í Strandheimum

Leikskólinn Strandheimar er Heilsueflandi leikskóli. Liður í því er að tileinka sér starfshætti sem efla grunnþætti Heilsueflandi leikskóla en þeir eru;

  • hreyfing
  • mataræði
  • geðrækt
  • fjölskylda
  • starfsfólk
  • nærsamfélag
  • öryggi
  • tannheilsa

Skólaárið 2021 – 2022 var áhersla lögð á grunnþáttinn starfsfólk þar sem markmiðið var að efla vellíðan starfsfólks á vinnustað sem lið í að tryggja nemendum okkar ávallt eins gott og heilsusamlegt umhverfi og völ er á.

Skólaárið 2022 – 2023 verður áfram lögð áhersla á grunnþáttinn starfsfólk ásamt því að bæta við grunnþættinum geðrækt  þar sem markmiðið er að efla þekkingu foreldra og starfsfólks á mikilvægi geðræktar, einkenni geðheilsuvanda og forvarnir gegn þeim.

Rétt er að taka fram að þó svo að áhersla sé lögð á einn til tvo grunnþætti ár frá ári, þá skipa allir grunnþættirnir átta stóran sess í starfsemi leikskólans.

Á starfsmannafundi 15. september nk. mun starfsfólkið svara gátlistum um geðrækt innan leikskólans og verður svo aðgerðaráætlun útbúin í kjölfarið. Einnig munum við fá fræðslu frá Barnavernd Árborgar sem og fræðslu um jákvæða sálfræði og heilbrigt líferni frá Ragnhildi Sigurðardóttur. Við minnum á að leikskólinn lokar kl.14 þennan dag v. starfsmannafundarins.

Á heimasíðu okkar, undir liðnum upplýsingar, má nálgast ýmis hagnýt ráð sem geta komið foreldrum og öðrum umönnunaraðilum barna að góðu gagni. Hvetjum við ykkur eindregið til þess að kynna ykkur bæklinginn um Geðheilsu barna sem hannaður er af Embætti landlæknis.

Nánari kynning á starfsemi leikskólans verður á kynningarfundum starfstöðvanna sem hér segir:

  • Þriðjudaginn 27. september kl. 15 – 16 í Æskukoti, Stokkseyri
  • Miðvikudaginn 28. september kl. 15 – 16 í Brimveri, Eyrarbakka

Vonandi sjáum við ykkur sem flest þá! 🙂

Kær kveðja,

starfsfólk Strandheima