Grænfánaverkefnið

10A0030F-9383-4E7F-9E5F-9D139E714801

Skóli á grænni grein

Í júní 2022 fékk leikskólinn Strandheimar Grænfánann afhentan í 6. sinn fyrir góða frammistöðu í menntun til sjálfbærrar þróunar og fyrir að leggja sitt af mörkum til þess að efla og bæta umhverfismál innan skólans og í nærsamfélaginu.

Leikskólinn hefur tekið þátt í verkefninu Skóli á grænni grein frá árinu 2009, en það er stærsta umhverfismenntaverkefni í heimi og er haldið úti af samtökunum Foundation for Environmental Education og hefur Landvernd yfirumsjón með verkefninu hér á landi.

Skólar sem eru þátttakendur í verkefninu hérlendis skulu skila inn greinagerð til Landverndar á tveggja ára fresti sem inniheldur lýsingu á því hvernig unnið er að markmiðum í sjálfbærnimenntun og umhverfismálum innan skólans. Landvernd metur svo hvort settum markmiðum hefur verið náð og veitir í framhaldi skólunum viðurkenningu í formi Grænfánans. Skólarnir fá þá leyfi til að flagga fánanum næstu tvö árin og fæst sú viðurkenning endurnýjuð ef skólarnir halda áfram góðu starfi. Grænfáninn er umhverfismerki sem nýtur virðingar víða um heim sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum.

Leiðir að markmiðum

Liður í Grænfánaverkefninu er að velja sér þema til að vinna eftir og hefur leikskólinn síðustu misseri lagt áherslu á þemun átthagar og vatn.

Af hverju átthagar?

„Þekking á nærumhverfinu eykur virðingu fyrir því og hvetur til bættrar umgengni. Einstaklingar sem umgangast og þekkja náttúrulegt landslag í sinni heimabyggð eru líklegri til að taka afstöðu með náttúrunni og þannig stuðla að vernd hennar.“ - Landvernd

Af hverju vatn?

„Flest tökum við vatni sem sjálfsögðum hlut og veltum lítið fyrir okkur þeim lífsgæðum sem felast í því að skrúfa frá krana og fá sér sopa af hreinu, ísköldu vatni. Á sama tíma er fólk annars staðar í heiminum sem þarf að ganga langar leiðir til að sækja vatn til heimilisins, sem jafnvel er ekki hreint. Það er því afar brýnt að vinna með vatn og gera nemendum grein fyrir mikilvægi þess að fara vel með vatnsauðlindina.“ - Landvernd

Markmið Strandheima út frá ofan töldum þemum voru eftirfarandi á tímabilinu:

  • Mikilvægi þess að spara vatnið eins og við getum
  • Að þekkja vatnshringrásina
  • Hvernig umgengni okkar við náttúru og umhverfi hefur áhrif á jörðina okkar
  • Að nemendur fái að kynnast nærumhverfi leikskólans
  • Að nemendur fræðist um fólk, staði og atburði sem tengjast þorpinu

Hægt er að lesa nánar um leiðir að markmiðum í greinagerð til Landverndar 2022, sem og endurgjöf til leikskólans frá Landvernd hér.

Umhverfissáttmáli Strandheima

Umhverfissáttmáli Strandheima hefur það að markmiði að börn, foreldrar og starfsfólk læri að vernda og bera virðingu fyrir heilsu sinni, náttúrunni og umhverfi. Við viljum ganga vel um leikskólann, fara vel með efnivið, nýta það sem við getum og skila öðru í endurvinnslu. Á þennan hátt getum við haft jákvæð áhrif á að þeir sem á eftir okkur koma, njóti þess í leik og starfi sem jörðin hefur upp á að bjóða og stuðlað þannig að heilbrigði og vellíðan.

Stefnan hér í leikskólanum

er sem segir hér.

Göngum vel um náttúruna,

virðum bæði tré og runna

svo dýr og börn á jörðinni

geti lengi leikið sér.

 

Matur, hreyfing, skiptir máli

fyrir okkur öll.

Hoppum, hlaupum, klifrum

borðum matinn, biðjum

að gæfa og gleði fylgi okkur,

framtíðin er björt!

(lag: Gamli Nói)
Texti: Ásgerður Tinna Jónsdóttir.