Veikindi, slys og lyfjagjöf barna


Veikindi

Í öllum tilfellum er gert ráð fyrir því að veik börn séu heima. Miðað er við að þau börn sem koma í leikskólann geti tekið þátt í öllu daglegu starfi dagsins, bæði úti og inni. Veikist barn í leikskólanum er hringt í foreldra þeirra og þau beðin um að sækja barnið eins fljótt og kostur er. Innivera eftir veikindi verður að vera í samráði við deildarstjóra.

Ekki er gert ráð fyrir að börn séu inni sem fyrirbyggjandi ráðstafanir.

Slys

Ef barn slasar sig alvarlega í leikskólanum er hringt í foreldra þess og þeir beðnir um að fara með það á slysavarðstofuna, auðvitað er hringt í sjúkrabíl í þeim tilfellum sem það á við. Gert er að minni sárum á staðnum, er þá átt við skrámur, kúlur og þess háttar. Almennt er gerð slysaskýrsla ef barn verður fyrir slysi innan skólans sem geymd er í leikskólanum. Allir nemendur sem eru í leikskólum Árborgar eru tryggðir meðan á dvöl þeirra stendur.

Lyfjagjöf á leikskólatíma 

Lyfjagjafir á leikskólatíma ættu í flestum tilfellum að vera óþarfar, því aðeins í undantekningartilfellum þarf að gefa lyf oftar en þrisvar á dag. Undantekning á þessu gætu verið sykursýkis-, asthma- og ofnæmislyf og hugsanlega lyf við ofvirkni. Í slíkum tilvikum er skylt að fá skrifleg fyrirmæli frá lækni þar sem fram kemur heiti lyfs og hvenær á að taka inn lyfið. Forráðamönnum er skylt að afhenda deildarstjóra lyfið og þarf hann að kvitta fyrir móttöku þess, heiti og magni. Ekki skal vera nema vikuskammtur af lyfinu í vörslu leikskólans í einu og skal hann geymdur í læstri hirslu.

Hér má sjá yfirlit yfir helstu smitsjúkdóma barna.

Áfalla- og slysaáætlun leikskóla Árborgar (2019)