Vinningshafi í nafnasamkeppni dreginn út

Líkt og áður hefur komið fram var það nafnið Strandheimar sem bar sigur úr bítum í nafnasamkeppni um nýtt nafn á leikskólann. Alls voru þrír einstaklingar sem komu með tillögu að því nafni, en það voru þau Hulda Guðmundsdóttir, Rúnar Eiríksson og Vigdís Unnur Pálsdóttir. Gripið var til þess ráðs að draga út sigurvegara af þeim þremur sem hlyti stóra vinninginn, en það var gjafabréf að þriggja rétta máltíð fyrir tvo hjá Rauða húsinu á Eyrarbakka. Allir tillöguhafar fengu blóm í viðurkenningu.

Það var í höndum Gísli H. Halldórssonar, bæjarstjóra Árborgar, að draga út vinningshafa og var það Rúnar Eiríksson sem hlaut vinninginn.

Nafnið Strandheimar hæfir leikskólanum vel og er táknrænt fyrir þær sakir að þorpin, Eyrarbakki og Stokkseyri, eru staðsett við strandlengju sem myndar tengingu þeirra á milli. Með því að láta nafnið enda á –heimar er einnig mynduð tenging við fleiri leikskóla sem starfræktir eru í Árborg.

Leikskólinn óskar þeim Huldu, Rúnari og Vigdísi innilega til hamingju, um leið og hann þakkar öllum sem sendu inn tilllögur kærlega fyrir þátttökuna.

Einnig vill leikskólinn koma á framfæri kærum þökkum til Rauða hússins sem styrkti keppnina með því að gefa veglegan vinning til vinningshafa.

 

Leikskólinn mun hægt og rólega hefja innleiðingu að nýja nafninu sem verður svo afhjúpað og tekið formlega til notkunnar á Vorhátíðum leikskólans í júní.

Birna Guðrún Jónsdóttir, leikskólastjóri Strandheima, afhendir Rúnari Eiríkssyni vinninginn.
Vigdís Unnur með sína viðurkenningu.